English

Sími 4415800

Ból

Foreldrabréf í maí 2016

Sælir kæru foreldrar.

Það er nú margt og mikið búið að vera að gerast í mai og ekki seinna vænna en rifja það upp með ykkur.

Í enda apríl / byrjun mai komu tónlistarsnillingarnir Gunnar og Þóra (foreldrar Þórunnar Obbu) og tóku upp nokkur lög sem börnin í leikskólanum völdu að syngja. Við á Bóli sungum fjögur lög af topp tíu lista deildarinnar..gekk það ágætlega og eru börnin mjög ánægð með afraksturinn og hlusta mikið á diskinn hér í leikskólanum og við höfum líka heyrt að þau hlusti mikið heima. Frábært framtak og skemmtilegt.

Lesa meira

Fréttabréf í Apríl

Sælir kæru foreldrar.

 

Áfram flýgur tíminn og apríl að verða hálfnaður..ekki seinna vænna en senda út eins og eitt foreldrabréf.

Mars leið hratt og var margt skemmtilegt brallað á Bóli eins og þið kannski hafið séð,við bjuggum til páskaunga úr leikdegi og skreyttum með fjöðrum..þæfðum litla ullarpáskaunga og skreyttum líka með fjöðrum og unnum svolítið með málningu, sand og lím.

Lesa meira

Fréttabréf í desember

Heil og sæl kæru foreldrar

Jæja, þá er nú nóvember þotinn hjá með öllu sínu amstri og fjöri. Börnin hafa verið dugleg að vinna alls konar verkefni sem tengjast jólunum og „leyndarmálum“ sem þau vita að ekki má segja fyrr en á jólunum! Já það eru sko mörg leyndarmál í desember!

Mánuðurinn er búinn að líða allt of hratt, margir verið veikir og veðrið ekki beint verið að skemmta okkur, en svona eru nú bara veturnir á íslandi og þá er bara að taka því. Okkur langar að þakka ykkur sérstaklega fyrir að sýna okkur tillitsemi bæði þegar veikindi starfsfólks herjuðu á leikskólann og eins þegar almannavarnir sendu okkur tilkynninguna um að tæma skólann fyrir klukkan 16:00 daginn sem óveðrið mikla skall á. Þið brugðust fljótt og vel við og erum við mjög þakklátar fyrir það.

Nú er desember að verða hálfnaður og við höfum haft fullt að gera m.a héldum við fyrsta desember, fullveldisdaginn, hátíðlegan með söng í sal og hangikjöti í hádeginu, þetta var skrýtinn dagur, fimm starfsmenn á Bóli með heil átta börn! En þau nutu sín svo sannarlega og við áttum frábæran dag. 

Við bökuðum líka piparkökurnar sem við svo buðum ykkur upp á sl.fimmtudag og langar okkur að þakka fyrir þessa gefandi og skemmtilegu stund þar sem við vorum að rifna úr stolti yfir litlu krúttsprengjunum sem sungu svo fallega fyrir ykkur, bara dásamlegt!

Börnin eru búin að vera ótrúlega dugleg að læra jólalögin og verða flott ájólaböllunum þetta árið.  Einnig gekk listaverkasalan glimrandi vel og verður gaman að gefa flóttabörnunum frá Sýrlandi þennan pening til leikfangakaupa, takk fyrir að styðja börnin í þessu verkefni.

Á morgun mánudag, 14. desember, eigum við svo von á jólasveinum í garðinn, það er auðvitað algjört hernaðarleyndarmál (uss) og viljum við biðja alla að mæta tímanlega, við byrjum að klæða út um níuleytið og þá þurfa allir að vera búnir að borða og tilbúnir í slaginn. Þessi stund í garðinum, þegar jólasveinar birtast skyndilega í myrkrinu, er mögnuð og það er ekki laust við að kennararnir svitni pínu í augunum þegar þeir sjá og upplifa spennuna, geðshræringuna og gleðina sem brýst út hjá litlu krílunum og baráttuna um hvort þau eigi að vera glöð eða hrædd. Flest eru samt til í að leika með sveinunum og syngja og njóta þessa ævintýris í botn.  Á miðvikudaginn,  er svo jólaballið okkar og þá biðjum við ykkur líka að mæta tímanlega, það byrjar á slaginu hálf tíu og þá verður gengið kringum jólatréð og sungið, jólasveinarnir koma í heimsókn og börnin fá gjafir sem þið foreldrar hafið keypt, að þessu sinni fá allir eins bók og er búið að pakka þeim inn og gera klárt fyrir daginn.

Við þökkum svo bara fyrir ánægjulegt samstarf á þessu ári sem nú er að kveðja og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Lesa meira