Viðmið um myndatökur og myndbirtingar úr leikskólastarfinu

Eftir áramót var skipaður hópur til þess að skoða persónuverndarlög og tilmæli frá Persónuvernd til skóla um vinnslu persónuupplýsinga og hverju þyrfti að breyta í verklagi Marbakka hvað snertir myndatökur og myndibirtingar í leikskólastarfinu. Í hópnum voru Rebekka kennari á Læk, Bergljót deildarstjóri á Bóli og Hildur aðstoðarleikskólastjóri. Hópurinn skoðaði auk laganna og tilmæla Persónuverndar, reglur sem Reykjavíkurborg setti í janúar fyrir skóla- og frístundastarf og lagði drög að viðmiðum fyrir Marbakka fyrir samráð deildarstjóra. Endanleg viðmið voru svo kynnt starfsfólki leikskólans á starfsdegi þann 22.maí. Sett voru viðmið annars vegar um myndatökur, s.s. myndefni, meðalhóf, tæki sem myndir eru teknar á o.fl. og hins vegar um birtingu mynda. Tilmæli Persónuverndar eru alveg skýr varðandi deilingu mynda þar sem hægt er að greina einstaklinga, slíkum myndum úr skólastarfi má ekki deila á samfélagsmiðlum þar sem skólinn hefur ekki eignarhald á efninu. Því verður inntaki facebook síða sem deildir hafa haldið úti breytt frá og með 6. ágúst 2020.

Foreldrar hafa fengið senda stutta kynningu með helstu upplýsingum um þessar breytingar en Vala verður framvegis nýtt til að deila myndum þar sem foreldrar hafa öruggan aðgang að myndum af börnum sínum í leikskólastarfinu. Starfsfólk fær fræðslu um nýtt verklag og vonum við að við náum nýjum takti í miðlun myndefnis til ykkar sem fyrst á haustmánuðum.