Stefnan Reggio Emilia á rætur sínar að rekja til Norður-Ítalíu, í rauða beltið svokallaða. Upphaflega voru leikskólarnir þar eingöngu reknir af kirkjunni, en í uppbyggingu bæjarins eftir seinni heimsstyrjöldina voru það foreldrar sem reistu þá og urðu að sýna fram á að þeirra væri þörf. Því var ákveðið að gera eitthvað meira, eitthvað öðruvísi, til að sanna tilverurétt þeirra.

Það er sálfræðingurinn og hugmyndasmiðurinn Loris Malaguzzi sem stendur á bak við Reggio Emilio stefnuna. Meginþættir hennar fela í sér sjónrænt uppeldi. Hún hvetur börnin til að virkja öll sín skilningarvit, málin sín hundrað og skapandi hugsunar. Grunnhugmyndirnar sækir hann m.a. til kenningasmiðanna Jean Piagets, sem leggur aðaláherslu á vitsmuna- og siðgæðisþroska barnsins, þ.e. að barnið byggi upp eigin þekkingu í gegn um skynjun sína og samkipti við annað fólk, og Eriks Erikssonar, sem telur líkamlega og persónulega þáttinn svo og menninguna mikilvægasta.

Aðferðafræðin er ekki fastmótuð heldur mótast hún af aðstæðum og þörfum hvers og eins hverju sinni, er lifandi og frumleg samhliða því að vera markviss og skipulögð. Viðfangsefnið á að vera barninu nákomið og skipta það máli, tengja saman hugmyndaflug og veruleika svo barnið skilji það og tilgang þess. Stefnan aðhyllist ekki þá uppeldisfræði sem hefur tilhneigingu til að skilja barnið frá þeim veruleika sem það býr við og tefla hugmyndafluginu fram sem andstæðu við raunveruleikann, því rætur ímyndunaraflsins eru í raunveruleikanum sjálfum og þess vegna má alls ekki skilja þetta tvennt að.

Börnin eru hvött til þess að hugsa og tjá sig á þann hátt sem þeim er eðlilegastur, þ.e. í myndlist, tónlist, ljóðagerð eða með líkama sínum. Sjónin gegnir miklu hlutverki í þroska barnsins, ef barnið sér vel þá vinnur höndin vel. Sjónskynjun barnsins er í stöðugri þróun, en til þess að góður þroski náist þarf forvitni barnsins að koma til. Því verða hinir fullorðnu að gefa barninu kost á umhverfi sem kallar á forvitni þess og löngun til þess að skoða og rannsaka hlutina frá mörgum sjónarhornum. Hugur barnsins er svo opinn að enginn hlutur er svo hversdagslegur að hann gefi ekki tilefni til þess að vera kannaður nánar, enda barninu ráðgáta hvort hluturinn sé í raun sá sem hann sýnist vera.

Það er skoðun Malaguzzi að börn eigi sér hundrað tungumál en hinir fullorðnu ræni þau smám saman málunum níutíu og níu. Börnin fá aðeins að halda einu eftir, hinu talaða máli, orðum sem eru köld og tóm og í vantar alla fyllingu og hlýleika. Með því að fá að nota málin sín hundrað getur barnið reynt, skynjað og upplifað sama hlutinn á hundrað vegu. Í upphafi leggur starfsfólk grunn að vinnu barnanna, sem síðan mótast og útfærast út frá hugmyndum og áhugasviði barnanna.

Malaguzzi leggur áherslu á að manneskjan á ekki að sætta sig við hvernig hluturinn er, heldur staldra við, kanna, skoða, rannsaka og upplifa, spyrja spurninga og leita svara við þeim. Þannig fer öll úrvinnsla í gegnum skilningarvitin í stað þess að allt sé afgreitt með nokkrum lítt hugsuðum orðum. Manneskjan þroskast hraðast á leikskólaaldri og þessi þroski hefur áhrif á allt líf hennar. Þess vegna er lögð rík áhersla á það í Reggio stefnunni að þessum dýrmætu árum sé ekki eytt í að hafa ofan af fyrir börnunum, heldur notuð til að styrkja og virkja börnin frá upphafi. Eiginleikar barnsins þroskast ekki að sjálfu sér heldur þarf að ýta undir þá á allan hátt með hvatningu og umhverfi sem laðar þessa eiginleika fram. Enda þótt stefnan sé upphaflega mótuð fyrir ítalskar aðstæður hefur hún þá sérstöðu að auðvelt er að yfirfæra hana á íslenskar aðstæður þar sem þjóðlegir siðir fá notið sín svo og íslensk sérkenni. Markmiðin eru þau sömu, þ.e. að efla og styrkja alla þroskaþætti og leggja áherslu á að allir séu jafnir í leik og starfi og fái notið bernsku sinnar.