Helstu áherslur, markmið og verklag

Sigurveig Hafsteinsdóttir og Linda Jóhannsdóttir skipta með sér starfi sérkennslustjóra í Marbakka. Sérkennslustjóri ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar ásamt leikskólastjóra. Sérkennslustjóri er faglegur umsjónarmaður sérkennslunnar og ber ábyrgð á miðlun upplýsinga milli sérkennslufulltrúa leikskóladeildar og starfsmanna leikskólans. Einnig hefur hún umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu.  

Handbók um snemmtæka íhlutun var gefin út haustið 2020 og er þar að finna áherslur leikskólans í málörvun, ferla vegna stuðnings við börn og fleira, bæði ætlað foreldrum og starfsfólki.

Ef grunur vaknar um þroskafrávik barns í leikskóla

Ef grunur vaknar hjá kennurum um að barn víki frá þroska á einhverju sviði ber þeim lögum samkvæmt að hlutast til um málið. Þetta á einnig við ef kennari telur að félagslegar aðstæður barns hamli að einhverju leyti þroskamöguleikum þess.

Mikilvægt er að markviss íhlutun hefjist strax og grunur vaknar, ekki sé beðið staðfestingar á þroskafráviki.

Í foreldraviðtali er leitað eftir áliti foreldra og rætt um það hvað leikskólinn er að gera til að örva þroska barnsins og hvers vegna.

Leikskólinn getur kallað eftir þjónustu sérfræðinga, talkennara, iðjuþjálfa og sálfræðings sem starfa hjá Kópavogsbæ. Viðkomandi sérfræðingur gerir þá formlega athugun á þroska barnsins með viðeigandi þroskaprófi eða matstæki. Slíkt mat getur farið fram með þátttöku foreldra. Niðurstöður athugunar eru ræddar við foreldra og vinnan með barnið er skilgreind nánar. Kennarar ákveða í samráði við foreldra hvort tímabært sé að biðja um utanaðkomandi athugun hjá sérfræðingi.

 

Sérkennslukvóti

Öllum leikskólum í Kópavogi er úthlutað sérstökum sérkennslukvóta sem ákveðinn er með hliðsjón af fjölda barna í hverjum leikskóla fyrir sig. Einnig er tekið mið af fötlun og/eða þroskafráviki barns og aðstæðum í leikskólanum og úthlutað sérstöku fjármagni með hliðsjón af gildandi reglum um úthlutun vegna sérkennslu. Þörfin fyrir sérkennslu er endurmetin reglulega í samráði við kennara barnsins.

 

Framkvæmd sérkennslu

Sérkennsla er yfirhugtak, sem notað er til að skilgreina þá aðstoð sem leikskólanum er veitt vegna barna með sérþarfir. Í leikskólanum er unnið samkvæmt einstaklingsnámskrá barnsins og áhersla lögð á að barnið verði fullgildur meðlimur í leikskólasamfélaginu og að allir kennarar séu virkir þátttakendur í námi þess.

Sékennsla getur verið með eftirfarandi hætti:

  • Aðstoð eða umönnun sem barnið þarf umfram önnur börn til að geta tekið þátt í leikskólastarfinu.
  • Til að örva ákveðna þroskaþætti hjá barninu
  • Fjölgun starfsfólks til að aðlaga leikskólastarfið, t.d. fækka börnum í hópstundum, svo barnið eigi auðveldar með að tileinka sér þá kennslu sem fram fer.
  • Sérstök vinna starfsfólks með barnahópinn þar sem unnið er með viðhorf barnanna, samskipti og tengsl.