Uppeldisfræðileg skráning hefur verið gerð frá upphafi starfsins á Marbakka og hafa leikskólakennarar notað aðferðina í auknu mæli til gagnaöflunar. Skráning fer fram með margvíslegum hætti. En til hennar nota kennarar upptökutæki, myndavélar, myndbandsupptökuvélar og minnisblöð.

Í Skólanámskrá Marbakka segir að skráning sé stór hluti af starfinu með börnunum, þá segir einnig í Aðalnámskrá leikskóla að leikskólakennari þurfi að ætla sér tíma til uppeldislegra skráninga og athugana, bæði með einu barni og í barnahóp.

Guðrún Alda Harðardóttir segir: „Eitt mikilvægasta hlutverk sem leikskólakennarar geta þróað með sér í daglegu starfi er að skrá hvernig börn læra”. Skráningarnar geta gefið leikskólakennaranum upplýsingar um hvað barnið kann, hvernig það lærir og hvernig það hugsar. Að vinna í anda Reggio Emilia felst í því fylgja börnunum, þau ráða förinni en kennarinn fylgir þeim eftir og hvetur þau.

John Dewey sagði að börn eigi að vera þátttakendur í því að móta eigin veröld, þar sem rödd þeirra hljómar og á hana hlutstað og tekið er tilliti til skoðana þeirra. Börnin þurfa að fá tækifæri til að nota gagnrýna hugsun, með því að skoða málin frá sem flestum hliðum og uppgötva margbreytileika lífsins.

Gardner telur að í gegnum vinnu við hluti, við það að skoða þá, raða og endurraða, athuga eiginleika og mælistærðir byggi börnin upp grunnþekkingu sína í rök og stærðfræðigreind. Dewey sagði að börnin þurfi að fá tækifæri til að taka eigin ákvarðanir og fá möguleika til að standa við þær, og til þess að nýta reynslu sína þurfi börnin aðstoð kennarans til að takast á við ný verkefni.

Rússneski sálfræðingurinn Vygotsky sagði að hlutverk kennara sé að vera ávallt skrefi framar og hvetja barnið áfram innan svæðis hins mögulega þroska sem þýðir að barnið getur meira með aðstoð fullorðinna eða öðrum þroskaðri heldur en það getur af sjálfsdáðum. Með opnum spurningum hvetur kennarinn barnið til gagnrýninnar hugsunar, þangað til það áttar sig sjálft á aðstæðunum og úrlausn verkefnanna. Í leikskóla skiptir miklu máli að börnin læri í gegnum samvinnu og samræður við kennara um verkefni og lausn vandamála.

Vygotsky sagði að með leiðbeinandi samtölum milli barns og fullorðins væri verið að örva svæði hins mögulegs þroska. Sem dæmi þegar barn er að byrja að púsla þá lærir það af fullorðnum eða eldra barni og mun barnið seinna nýta sér kunnáttuna við breyttar aðstæður.

Piaget sagði að börn þyrftu að hafa hluti til að læra af ekki bara bók og blýant, hann lagði áherslu á uppgötvunarnám barnanna. Börn eru forvitin og með því að rannsaka umhverfið byggja þau upp nýja þekkingu þau byggja ofan á fyrri reynslu og skilning.

Í Reggio er það haft hugfast að börn séu fær um að nota sköpunargáfuna sem verkfæri til margskonar leiða til að brjóta sér leið að þekkingu. Börnin eru hvött áfram með opnum spurningum og þurfa því leikskólakennarar að vera meðvitaðir um að spyrja spurninga eins og hvað?, hvernig ? hvers vegna? því börnin eru sífellt að læra og að gera uppgötvanir.

Í bók Guðrúnar Öldu, Leikskóla lífsins segir að leikskólakennarar geti stuðlað að því að gera þekkingu barnanna í leikskólanum sýnilegri með skráningum. Skráningarnar gefa leikskólakennaranum upplýsingar um hvað barnið kann, hvernig það lærir og hvernig það hugsar.

Skráningin gefur einnig börnunum tækifæri til að endurupplifa, skoða og túlka. Skráning styrkir minni og gefur börnunum einnig kost á að skoða eigin framfarir, fá staðfestingu eða leiðrétta sjálft sig. Því að með því að börnin skoði verk sín og annarra þá geta börnin borðið sig saman við önnur börn og heyrt samanburð þeirra.

Við skráningarnar, eins og í öllu Reggio starfi, þarf kennarinn að horfa á börnin vinna og hlusta á þau, virða skoðanir þeirra, og þróa starfið út frá forsendum barnanna. Spyrja sig spurninga eins og

Hvernig læra börn?

Hvernig lærir þetta barn?

Hvað er barnið að hugsa?

Kennarinn þarf því að hafa í huga að ákveða ekki niðurstöðu skráningarinnar áður en barnið lýkur við verkefnið. Kennarinn þarf einnig að hafa í huga að spyrja barnið út í verkið og huga að

Á hverju hefur barnið áhuga?

Hverskonar þekkingu býr það yfir?

Hvernig get ég nýtt þessa þekkingu til að hvetja barnið, þannig að það komist lengra í þroska sínum?

Það getur kennarinn gert með því að spyrja barnið krefjandi spurninga sem hvetur barnið til gagnrýninnar hugsunar. Þá þarf kennarinn einnig að huga að því

Hvernig get ég sem kennari nýtt mér þetta sem langtímaverkefni, til að dýpka skilning minn og barnsins?

Hvernig á verkið að halda áfram?

Hlustum við á það sem barnið er að segja?

Hvað getum við lært af barninu?

Berum við virðingu fyrir því sem barnið segir og gerir?


Því þarf kennarinn að spyrja barnið hvernig það geti hugsa sér áframhaldandi vinnu með verkefnið sem það eða þau er að vinna að. Kennarinn þarf að vera með opin huga og viða að sér ýmiss konar bókum eða upplýsingum til dæmis af netinu til að hvetja börnin áfram við verkefnið. Hann þarf því að hafa í huga spurningu eins og

Er nauðsynlegur efniviður tiltækur fyrir börnin?

Hverskonar boð koma frá umhverfinu?


Kennarinn þarf að hafa í huga að barnið njóti alls þess efniviðar sem tiltækur er í leikskólanum og hafa hugfast að barnið sér allt annað en það sem kennarinn er búin að gera sér hugmyndir um úr efniviðnum.

Þá veitir skráning möguleika á skipulagi innra starfs og eykur þekkingu og yfirsýn sem síðan er nýtt til þróunar. Skráningaraðferðin gerir innra starf leikskólans sýnilegra og getur þannig verið verkfæri til að breyta skólastarfinu.


Þannig geta leikskólakennararnir unnið úr skráningunum og skipulagt starfið með tilliti til áhugasviðs barnanna. Í skráningu felst meðal annars það, að leikskólakennarinn tekur myndir af verkum barnanna, ekki bara þegar þau eru fullkláruð heldur ferlinu á meðan verkið er unnið. Kennarinn getur einnig skrifað hjá sér hugrenningar barnsins og samtöl barnanna þegar þau eru að vinna að verkefnunum.


Kennarinn þarf að gera það að list sinni að hlusta og spyrja, að svara ekki barninu áður en það hefur spurt sinna spurninga.


Skráning er góð leið til að miðla óvæntum uppgötvunum sem verða í daglegu lífi barna og sýna foreldrum það starf sem á sér stað innan leikskólans. Skráning veitir foreldrum einstakt tækifæri, til að kynnast því sem barnið þeirra er að gera, hvernig og af hverju. Þeir kynnast einnig merkingu þess sem barnið gefur í það sem það gerir og það sem það deilir með öðrum börnum.


Skráningarnar gera sögu skólans skil fyrir foreldra og aðra sem koma í heimsókn og gerir daglegt starf skólans sjáanlegt. Þegar skráning er notuð á þann hátt, sýnir hún foreldrum hvernig kennarar hlusta og sinna börnum þeirra, stuðlar að vellíðan þeirra og þróar áhugamál hjá börnunum, þá er skráning öflugt tæki til að mynda traust samband milli foreldra og kennara.


Þá eru skráningar sérlega góður grunnur að uppeldislegri umræðu og gott að hafa þær tilbúnar til að hafa á deildarfundum, starfsmannafundum, fagfundum, foreldrafundum og í foreldrasamtölum. Þá er gott að ræða skráningar við starfsfólkið og foreldrana.Auk þess býður skráning upp á sjálfsmat leikskólakennara, hópamat það er að skoðanir hópsins geta fengið aðra sýn við það að skoða skráningar af börnunum, því skoðun hvers og eins getur breyst, og nýjar hugmyndir kvikna. Skráning veitir ekki síst kennaranum tækifæri til að skilja hvað börnin hugsa og hvað þau eru að uppgötva í leik og starfi alla daga.